Saga Seljasafnaðar

Valgeir Ástráðsson skrifar

Það var ákaflega hröð uppbygging í Breiðholtshverfunum á áttunda áratugnum. Hverfin stóru risu og fólk flykktist þangað til búsetu. Það er enn svo, að margir gera sér þess ekki grein, hversu fjölmenn byggðin er í Breiðholtshverfunum. En þar er mikil og góð byggð, þar sem gott er að vera.

Kirkjulegt starf fór að margra dómi allt of hægt af stað í Breiðholtinu. Breiðholtssöfnuður var stofnsettur árið 1972. Fyrst var honum þjónað frá Bústaðakirkju. En síðan var sr. Lárus Halldórsson kosinn prestur þar. Ytri aðstaða til starfs var engin, hverfið óx af miklum hraða. Fjöldi barna og unglinga var mikill. Fyrst byggðust Fella- og Hólahverfi. Þar var stofnuð kirkjusókn árið 1975. Þá var komin nokkur byggð í Seljahverfinu og hún óx gríðarlega hratt. Kirkjustjórnin gerði á næstu árum harðar atrennur til þess að þar mætti einnig stofna nýtt starfssvæði kirkjunnar. Árið 1980 var íbúafjöldinn í Seljahverfi orðinn á áttunda þúsund og stefndi hratt í það sem síðar varð þar, á tíunda þúsund íbúa. Á þeim tíma var í Seljahverfi lægstur meðalaldur á landinu og fjölmennustu grunnskólarnir.

Það ár losnaði prestsembætti við eina af kirkjunum í borginni. Kirkjustjórnin ákvað, að stofnuð yrði kirkjusókn í Seljahverfi og henni lagður til sá starfsmaður, sem yrði sóknarprestur í Seljaprestakalli.

Seljasókn stofnuð. Prestskosning.

Prófastur Reykjavíkur var þá sr. Ólafur Skúlason, síðar biskup. Í umboði biskups kallaði hann til safnaðarfundar í hinu unga Seljahverfi. Fundurinn var boðaður í Ölduselsskóla 15. júní, 1980. Þar var tekin samhljóða sú ákvörðun, að stofnuð skyldi ný kirkjusókn. Svæði hennar skyldi ná yfir allar götur, sem heita –sel og –skógar og skyldi hún heita Seljasókn. Hún skyldi verða eitt prestakall. Á fundinum var kosin stjórn safnaðarins: Gísli H. Árnason, formaður, Ásdís Kristjánsdóttir, ritari, Þórarinn Ragnarsson, gjaldkeri, Gyða Ragnarsdóttir, og Ragnar Wiencke. Varamenn voru kjörnir Anna Baldursdóttir, Gunnar Tryggvason og Hjördís Birgisdóttir. Reynir Björnsson var kosinn safnaðarfulltrúi.

Fyrsta verkefni nýkjörinnar sóknarnefndar var að standa fyrir prestskosningu, en á þeim tíma voru sóknarprestar kosnir almennri kosningu. Umsækendur heimsóttu fólk í hverfinu. Kynningarguðsþjónustur voru haldnar í Bústaðakirkju. Kosningin var 31. ágúst og þá var sr. Valgeir Ástráðsson, þáverandi sóknarprestur á Eyrarbakka, kosinn lögmætri kosningu. Var hann skipaður sóknarprestur Seljaprestakalls frá 1. september. Fyrsta almenna guðsþjónustan í hverfinu var þegar prófasturinn setti nýjan sóknarprest inn í embætti, 5. október 1980. Síðan hafa verið guðsþjónustur innan sóknarmarka nær hvern helgan dag.

Frumbýlisár og aðstöðuleysi

Þegar starf safnaðarins hófst, einkenndist það mjög af aðstöðuleysi. Í hverfinu var allt húsnæði í byggingu, fólkið var ungt. En það var áhugasamt og bjartsýnt fólk, sem gekk til starfa og lét sér ekkert fyrir brjósti brenna.

Fyrst varð að leita eftir aðstöðu til þess að halda guðsþjónustur, einnig aðstöðu fyrir skrifstofu og annan rekstur safnaðarins. Þar var ekki um auðugan garð að gresja. Fyrsta árið voru almennar guðsþjónustur haldnar á efri hæð verslunarhússins á Seljabraut 54. Þar voru einu salarkynnin í hverfinu, sem hugsanleg voru til slíkrar notkunar. Salurinn þar var ekki stór, og var notaður á hverju kvöldi vikunnar til margháttaðrar starfsemi. Söfnuðurinn fékk að nota sunnudagana fram að kvöldi og eitt kvöld í miðri viku. Það þýddi að fyrir hverja athöfn varð að raða upp stólum, “byggja kirkju” og rífa hana síðan aftur niður. Þetta hefði alls ekki verið hægt, nema vegna þess að áhuginn var mikill og fórnfýsin rík. Líka naut söfnuðurinn velvildar og stuðnings bæði húseigendanna, og þeirra, sem höfðu húsið á leigu. Þarna voru guðsþjónustur, barnaguðsþjónustur og annað samkomuhald. Líka var þar fyrst í stað skrifstofa sóknarprestsins, þar sem viðtöl fóru fram og sálgæsla stunduð.

Að sjálfsögðu var þetta húsnæði engan veginn nægjanlegt. Mikill velvilji skólastjóranna í hverfinu var ómetanlegur. Þau Áslaug Friðriksdóttir, skólastjóri Ölduselsskóla og Hjalti Jónasson, skólastjóri Seljaskóla, voru á sérstakan hátt áhugasöm fyrir starfi sóknarinnar og ávallt tilbúin til þess að opna dyr skólanna. Það gerðu þau, þrátt fyrir þá staðreynd að skólanir voru á þeim tíma báðir hálfbyggðir og ofsetnir. Barnaguðsþjónustur voru frá upphafi á tveimur stöðum í hverfinu, á Seljabrautinni og í Ölduselsskólanum. Síðar þegar rekstur breyttist á Seljabrautinni hófust barnaguðsþjónustur í Seljaskólanum og voru í báðum skólum um árabil, allt þar til starfið flutti í Seljakirkju. Á þeim árum var barnafjöldinn í Seljahverfinu gífurlegur. Skólarnir voru með fjölmennustu barna og unglingaskólum á landinu. Það var oftast, að í tveim barnaguðsþjónustum, sem haldnar voru á sama tíma á sunnudagsmorgnum, hafi verið u.þ.b. 500 börn.

Almennar guðsþjónustur fluttu árið 1981 í Ölduselsskóla, þar sem þær voru fyrst á gangi elstu byggingarinnar, en síðar í samkomusal skólans, þegar hann hafði verið byggður. Organisti safnaðarins á fyrstu árunum var Ólafur W. Finnsson, sem vann gott og farsælt brautryðjendastarf.

Safnaðartíðindi Seljasóknar

Til þess að koma upplýsingum til safnaðarfólks hófst útgáfa safnaðartíðinda. Fyrsta tölublað þeirra kom út í desember árið 1980. Blaðið hefur komið út síðan og þar hafa verið fregnir um það helsta sem gerist í safnaðarstarfinu og lögð áhersla á það að gefa öllu safnaðarfólki möguleika á því að fylgjast með og vita þannig um starf safnaðar síns. Þetta hefur orðið til þess að vekja safnaðarfólk til vitundar um ábyrgð í starfinu. Þegar mikið var að gerast í framkvæmdum, eins og t.d. við áfanga kirkjubyggingarinnar, gátu allir þar fylgst með. Safnaðartíðindin hafa ávallt verið borin út á hvert heimili sóknarinnar. Nú hafa verið gefin út um 70 blöð og í þeim er að finna mikilvægar heimildir um starf safnaðarins á tuttugu ára ferli.

Kvenfélag – Æskulýðsfélag

Strax á fyrsta starfsári safnaðarins var Kvenfélag Seljasóknar stofnað. Voru þar áhugasamar og dugandi konur sem komu til starfa og félagið varð öflugt og starfi safnaðarins til eflingar. Starf kvenfélagsins er enn einn af máttarstólpum safnaðarstarfsins. Af margháttaðri starfsemi félagsins má nefna kór kvenfélagsins, Seljurnar, sem víða munar mikið um.

Æskulýðsfélag safnaðarins var stofnað á sama tíma. Það er Æskulýðsfélagið Sela, sem starfar enn af miklum krafti og þaðan eiga margir góðar og farsælar minningar.

Fermingarstarfið

Það háttaði þannig til í upphafi safnaðarstarfs Seljasóknar, að hvergi í einum söfnuði á landinu var jafn mikill fjöldi fermingarbarna. Þannig var það um margra ára skeið og var söfnuðurinn af því þekktur. Fermingarstarfið setti því mikinn svip á safnaðarstarfið allt. Í hinni viðamiklu fermingarfræðslu var unnið mikið kristilegt æskulýðsstarf. Þegar kom að fermingarathöfnunum sjálfum, þurfti söfnuðurinn að leita á náðir annarra safnaða um lán á kirkjum, áður en hann eignaðist eigið húsnæði til helgihalds. Fermingarguðsþjónustur Seljasafnaðar voru haldnar í kirkjum víðs vegar um borgina, þar sem aðrir söfnuðir reyndust okkur vinir í raun. Þegar talið var saman við vígslu Seljakirkju, hversu víða hafði verið helgihald á vegum safnaðarins kom í ljós að fermingarguðsþjónustur og aðrar auglýstar guðsþjónustur höfðu verið haldnar í tíu kirkjum borgarinnar. Guðsþjónustustaðir höfðu þá verið átján alls.

Tindasel 3

Á öðru starfsári safnaðarins festi hann kaup á húsnæði í Tindaseli 3. Það húsnæði var neðri hæð, reyndar kjallari verslunarhúss, Var þar strax innréttuð skrifstofa sóknarprestsins og síðar lítill en notarlegur salur. Varð þar aðstaða safnaðarins um margra ára skeið, eða allt þar til kirkjumiðstöðin var tekin í notkun. Í salnum í Tindaseli fór fram ótrúlegasta starfsemi. Þar voru haldnir allir mögulegir fundir, námskeið, fermingarundirbúningur, söngæfingar, bænastundir, svo eitthvað sé nefnt. Ekki var mögulegt að halda almennar guðsþjónustur þar eða barnaguðsþjónustur, til þess dugði salurinn ekki. Þegar fyrsti áfangi kirkjumiðstöðvarinnar var tekinn í notkun og flutt var þangað, eignaðist skátafélagið Segull húsnæðið í Tindaseli og hefur haft starfsemi sína þar síðan.

Kirkjubyggingarnefnd.

Þörfin var ljós. Metnaður safnaðarins var til þess að hann eignaðist gott hús til nota fyrir guðsþjónustuhald og annað safnaðarstarf. Snemma árs var skipuð nefnd til að vinna að undirbúningi þess máls. Í nefndinni voru Helgi Hafliðason, Páll R. Magnússon, Ómar Einarsson, Snorri Guðmundsson og sr. Valgeir Ástráðsson, en hann var formaður nefndarinnar. Kirkjubyggingarnefndin hóf þegar störf og starfaði af kappi. Í erindisbréfi nefndarinnar var lögð á það áhersla, að við undirbúning kirkjubyggingarinnar, skyldi þess gætt að þar miðaðist allt fyrst og fremst við að veita þjónustu við íbúa sóknarinnar, yngri og eldri. Þar skyldi vera rými fyrir hvers konar kristilegt starf. Nefndinni var falið að ráða arkitekt til starfa og vinna síðan með honum að hönnun byggingarinnar til þess að sem flest sjónarmið og notagildi kæmust til skila. Sverrir Norðfjörð arkitekt var ráðinn til starfa. Vann hann með kirkjubyggingarnefnd að hönnun kirkjubyggingarinnar. Seljakirkja er hugsuð innan frá, með notagildið í huga. Þess vegna er hún líka frábær starfsmiðstöð. Þá er hún líka stílhreint og fallegt hús, þar sem hið sérstæða form nýtur sín vel og verk arkitektsins kemst vel til skila.

Í safnaðartíðindum í nóvemberlok árið 1982 voru teikningar kirkjumiðstöðvarinnar kynntar safnaðarfólki. Þar gerði byggingarnefnd grein fyrir hugmyndum, sem að baki lágu. Vegna hins mikla notagildis kaus nefndin að kalla húsið kirkjumiðstöð. Kynning hugmyndanna fékk ákaflega góðar viðtökur. Íbúar hverfisins, sem voru vanir því að rýna í teikningar, skildu vel hvað þar var á ferð og áhuginn til framkvæmda varð mikill. Kirkjumiðstöðin er fjögur hús með tengibyggingu. Tilgangur þess byggingarlags var að reisa mætti húsin í áföngum, og þegar allt væri upp komið væri hægt að nota marga sali samtímis, án þess að eitt truflaði annað. Þessi hugsun hefur reynst farsæl í því mikla starfi, sem á hverjum einasta degi vikunnar er rekið í kirkjumiðstöðinni, oftast langt fram á kvöld.

Kirkjubyggingin

Verkefnið var stórt, en bjartsýni og þörf knúðu til verka. Kirkjubyggingar eru ekki greiddar af opinberu fé eins og skólar, svo dæmi sé tekið, heldur verða eigendur kirkjunnar, fólkið í hverfinu, að sjá fyrir þeirri byggingu. En þar var staðið saman. Á byggingartímanum var oft leitað til safnaðarfólks og þar var vel við brugðist.

John Fr. Zalewski var ráðinn byggingarmeistari kirkjumiðstöðvarinnar.

11. júní árið 1983 tók Pétur Sigurgeirsson, þáverandi biskup Íslands, fyrstu skóflustungu að byggingunni við hátíðlega athöfn á kirkjustæðinu. Strax að lokinni þeirri athöfn hófust framkvæmdir með stórvirkum vinnuvélum. Sú vinna var gefin til minningar um Ingunni Unnsteinsdóttur, unga stúlku, sem látist hafði af slysförum skömmu áður. Það sem annað var táknrænt um samstöðu og vilja fólks til að koma kirkjunni upp. Það ár og fram á það næsta var unnið við sökkla og kjallara. Í maímánuði 1985 var hafist handa við að steypa alla útveggi húsanna, og því verki var lokið á rúmum mánuði. 23. júní 1985 var haldin eftirminnileg guðsþjónusta innan veggja kirkjusalarins undir berum himni. Sumarið 1986 var þak eins húsanna fjögurra reist og gengið frá þaki tengibyggingarinnar. 10. október 1987 var skrifstofa sóknarprests flutt í kirkjumiðstöðina ásamt annarri starfsemi sem verið hafði í Tindaselinu. Það sama ár var samhliða unnið að kirkjuhúsinu. 3. sunnudag í aðventu, 13. desember 1987 var Seljakirkja vígð við hátíðlega athöfn og mikið fjölmenni. Sigurður Guðmundsson, biskup, framkvæmdi vígsluna.

Ný starfsaðstaða

Það gjörbylti allri starfaðstöðu safnaðarins, þegar kirkjan var tekin í notkun. Önnur salarkynni í kirkjumiðstöðinni gerðu það að verkum að fleiri tækifæri gáfust til eflingar á safnaðarstarfi. Árið eftir vígslu var keypt gott pípuorgel í kirkjuna. Það orgel hafði áður verið í kirkjunni á Hólum í Hjaltadal. Strax að lokinni vígslu settu nemendur Seljaskóla sér það mark, undir forystu Hjalta Jónassonar, skólastjóra, að safna nægjalegu fé til að kaupa kirkjuklukkur fyrir Seljakirkju. Það gekk á undraverðan hátt. 22. mars 1991 afhentu nemendur Seljaskóla þrjár stórar kirkjuklukkur, sem gjöf til Seljakirkju. Það er glæsilegasta og mesta gjöf, sem vitað er að unglingar hafi gefið kirkjunni sinni hér á landi. Það er dýrmætt. Mest er þó um vert um þann hug sem að baki bjó og sýnir tengsl kirkju og hverfis.

Tvö hús voru þá án þaks. Þau voru reist sumarið 1991. Á aðventu 1992 var skrifstofuálman tekin í notkun. Árið eftir var gengið frá útveggjum húsanna og hvítur marmarasalli settur þar. Sumarið 1995 var gengið frá umhverfi og lóð. Það sumar var einnig unnið að byggingu klukkuturnsins. 3. desember, sem það ár var fyrsti sunnudagur í aðventu, var kirkjuklukkunum hringt í fyrsta skiptið. Það gerði að sjálfsögðu Hjalti Jónasson, skólastjóri. Vorið 1999 var lokið síðasta stóra byggingaráfanganum, þegar stærsti safnaðarsalur kirkjumiðstöðvarinnar var tekinn í notkun.

Þegar kirkjumiðstöðin í heild var þannig tekin í notkun breyttist starfsaðstaða verulega í sókninni. Kirkjusalurinn sjálfur tekur liðlega fjögur hundruð manns og má stækka fram í anddyrið. Aðalsafnaðarsalurinn er það stór að þar hefur verið lagt á borð fyrir 150 manns. Auk þess eru þrír aðrir góðir salir sem notaðir eru til fjölbreyttrar starfsemi. Skrifstofuaðstaða er einnig góð.

Starfið er meginatriði

Það hefur farið mikið fyrir byggingu kirkjumiðstöðvarinnar í sögu safnaðarins. Það er ekki óeðlilegt að jafn stórt verkefni taki mikið rúm í umfjöllun um söfnuðinn á tuttugu ára afmæli. En það má öllum vera ljóst, að kirkjuhúsið sem slíkt er ekki takmark, það er aðeins umgjörð um það sem mestu máli skiptir, starf safnaðarins. Því takmarki hefur verið náð að koma á fót öflugu safnaðarstarfi. Algengast er að á kvöldin sé starfað í mörgum sölum kirkjumiðstöðvarinnar samtímis, þar sem húsið iðar af lífi. Að degi til eru einnig margháttuð starfsemi. Á hverri viku yfir vetrartímann sækja um 1200 manns fasta starfsemi kirkjumiðstöðvarinnar. Þá eru ekki taldar með þær athafnir, sem ekki eru föst starfsemi, svo sem skírnir, hjónavígslur og jarðarfarir. En þær athafnir hækka verulega tölu þeirra, sem í kirkjumiðstöðina koma. Þeir sem koma og taka þátt í starfi safnaðarins gera það til þess að biðja fyrir sér og sínum, leggja líf sitt í hendur Guðs, leita leiðsagnar í ferli lífsins og taka þátt í félagsstarfsemi sem rekin er fyrir alla aldurshópa. Í Seljakirkju er verkmesta félagsstarf Seljahverfis. En því verður líka við að bæta, að margir íbúar hverfisins, eigendur kirkjunnar, nýta sér ekki sem skyldi þá þjónustu, sem þar er veitt. Það þyrftu þeir að gera.

Starfsfólk

Á fjörtíu ára ferli hafa margir lagt hönd á plóginn og sett mark á sögu safnaðarins. Fyrsti formaður sóknarnefndar var Gísli H. Árnason (1980 – 1989). Þá varð Þröstur Einarsson formaður (1989 – 1992), Friðrik Alexandersson (1992 – 1998), Gísli Friðgeirsson (1998 – 1999). Jón Guðmundsson (1999 – 2002). Jón Símon Gunnarsson (2002 – 2005) Guðmundur Hjámarsson (2005 – 2012), Guðmundur Gíslason (2012 – )

Tónlistarstjórar safnaðarins hafa verið þau Ólafur W. Finnsson, Smári Ólason, Violetta Smidova, Kjartan Sigurjónsson, Jón Ólafur Sigurðsson, Gróa Hreinsdóttir og Jón Bjarnason. Núverandi tónlistarstjóri er Tómas Guðni Eggertsson.

Sr. Valgeir Ástráðsson var valinn fyrsti sóknarprestur safnaðarins, kosinn í almennri prestskosningu árið 1980. Sr. Gylfi Jónsson var aðstoðarprestur 1985 – 1987. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir var vígður aðstoðarprestur 1988. Hún starfaði við kirkjuna til ársins 2002. Sr. Guðný Hallgrímsdóttir og sr. Ingileif Malmberg leystu sr. Irmu af 1992 og 1993.Sr. Ágúst Einarsson hóf störf við Seljakirkju haustið 1995. Hann hvarf frá störfum 2004. Sr. Bolli Pétur Bollason leysti sr. Ágúst af 2002 -2004. Þá var hann ráðinn prestur við Seljakirkju og starfaði allt til 1. apríl 2009. Sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson var skipaður í embættið frá sama degi, en hann hafði verið vígður til safnaðarins árið 2007 sem prestur með áherslu á barna- og æskulýðsstarf í söfnuðinum.  Sr. Valgeir lét af embætti sóknarprests fyrir aldurs sakir árið 2014 og í kjölfarið fóru fram almennar prestskosningar í Seljasókn, nokkuð sem var þá orðið fremur sjaldgæft. Sr. Ólafur Jóhann fékk flest atkvæði  og tók við embætti sóknarprests í september 2014. Sr. Bryndís Malla Elídóttir var þá skipuð sem prestur sem hún gegndi frá 2014 – 2022.  Sr. Sigurður Már Hannesson hefur starfað sem prestur Seljasóknar frá 1. september 2022.

Fyrsti umsjónarmaður kirkjumiðstöðvarinnar var Ágúst Guðjónsson. Steinunn Maríusdóttir tók við starfi hans er hann lést.  Þá tóku við Guðný Skarphéðinsdóttir og Guðmundur Guðmundsson, en hann lét af störfum árið 2009 og við hans starfi tók Freyja Helgadóttir. Guðný og Freyja létu af störfum 2014. Steinunn Anna Baldvinsdóttir tók við stöðu kirkjuvarðar og æskulýðsfulltrúa árið 2014 og hefur hún haft umsjón með kirkjumiðstöðinni. Ásamt henni hafa starfað Rannveig Þyri Guðmundsdóttir, Guðrún Þorgrímsdóttir, Þórður Arnar Árnason, Hanna Gísladóttir og Erna Davíðsdóttir við umsjón kirkjunnar.

Nýir tímar

Þegar horft er um öxl á tímamótum skal það gert til að meta og horfa síðan fram á við til nýrra verka. Það er ekki mikill aldur kristins safnaðar þegar talað er um tuttugu ár. Þó er það svo að margt hefur gerst á þeim tíma í sögu Seljasafnaðar. Þar hefur starfið verið framsækið, þar hefur verið briddað upp á mörgu sem ekki þekktist áður. Þar hefur í mörgu verið brautryðjendastarf í borgarsamfélaginu, gengið í fararbroddi til nýrra tíma. Margt af því, sem við höfum gert í Seljasókn hefur rutt þá braut. Kirkjumiðstöðin er talin af kunnáttumönnum tímamótabygging, enda sannast það af notkunargildi og hagkvæmni. Mestu sigrarnir í starfi hafa þó verið hvernig í safnaðarstarfinu hefur vel tekist að tengjast öðru starfi í Seljahverfi, skólum og félögum og efla þar samstarf til betra mannlífs. Þar hefur Seljakirkja sannarlega verið lifandi miðstöð.

Lengi var Seljahverfið með yngstan meðalaldur borgarinnar. Hverfið er enn ungt í þeim skilningi, en ekki eins og áður var. Það hlýtur að kalla á breyttar áherslur. Á síðustu árum hefur margt fólk flutt úr hverfinu og nýtt fólk flutt inn. Í safnaðarstarfinu kallar það einnig á aukna kynningu, því að viðhalda lifandi og góðu starfi.

Á síðustu tuttugu árum hefur Seljasöfnuður við erfiðar aðstæður brotist fram til verka. Þar hefur verið safnaðarstarf, sem margir aðrir söfnuðir hafa talið vera fyrirmynd. Á tuttugu ára afmæli býr söfnuðurinn við mjög góða starfsaðstöðu. Í því er fólgin ögrun, hvatning til verka.

Hlutverk kristins safnaðar er að boða trú á Jesúm Krist. Takmark allra starfa er að efla trúarlíf, siðgæði og mannlíf, þar sem kærleikur ríkir. Í safnaðarstarfinu er það ekki aðeins hlutverk fastra starfsmanna. Þar er allt safnaðarfólk í ábyrgð. Á tímamótum skulum við því ganga fram til verka samhent í þeirri hugsjón kristinnar trúar, sem gefur okkur það besta.

Birtist að stofni til sem grein í Safnaðartíðindum Seljasóknar, tuttugu ára afmælisriti árið 2000. Breytingar hafa verið gerðar varðandi starfsfólk og nefndir