Dagana 25. nóvember til 10. desember mun Soroptimistaklúbbur Bakka og Selja lýsa Seljakirkju með roðagylltum (appelsínugulu) lit. Þetta er gert til  þess að vekja athygli á átaki Sameinuðu þjóðanna „Roðagyllum heiminn“. Þessu átaki er ætlað að efla vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi. Alþjóðasamtök soroptimista, ásamt ýmsum öðrum kvennasamtökum hér á landi og á alþjóðavísu, hafa gert þetta átak að sínu og taka þátt í því meðal annars með því að lýsa upp opinberar byggingar í roðagylltum lit meðan á því stendur.

Það er táknrænt að Roðagylltu dagarnir hefjast á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi og þeim lýkur á sjálfum Mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, 10. desember, en sá dagur er jafnframt alþjóðlegur dagur Soroptimista.